19.3.2008 | 13:41
Allir jafnir, engir tveir eins
Í tilefni Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti dagana 15.-23. mars er ágætt að hugleiða kynþáttamisrétti og fordóma hér á Íslandi. Í mínu starfi verð ég vör við það að oft stöndum við okkur nokkuð vel. Það er mín tilfinning að stór hluti þjóðarinnar sé sér meðvitandi um hversu jákvæð og góð áhrif innflytjendur hafa á íslenskt samfélag. Einnig hversu fjölbreyttari menning okkar hefur orðið í kjölfar þess að fólk af erlendum uppruna sér kosti þess að setjast hér að og hefja nýtt líf á litla Íslandi. En þrátt fyrir að meginþorri þjóðarinnar taki fjölgun fólks af erlendum uppruna hér á landi vel þá heyrast nokkuð oft háværar raddir um ókosti þess.
Ég á í stökustu vandræðum með að skilja þessar raddir, margir Íslendingar hafa sjálfir notið þeirra forréttinda að fá að búa erlendis og þá vera útlendingur þar í landi. Það er mikil lífsreynsla og fólk lærir margt nýtt. Við erum stolt af heimsborgurunum okkar og fólkinu í útrás. Aldrei hef ég heyrt að vera Íslendinga erlendis hafi neikvæð áhrif á menningu og samfélag þeirrar þjóðar sem þeir dvelja meðal, jafnvel þótt um sé að ræða innrás í erlenda menningarheima. Það er jú þannig að meðan við erum í útrás hér heima erum við í innrás erlendis.
Þá má benda á að Íslendingar eru ekki frábrugðnir öðrum þjóðum og ekki erum við öll eins. Meðal þeirra fjölmörgu Íslendinga erlendis, leynast líka svartir sauðir sem ekki er hægt að segja að sé íslensku þjóðinni til sóma. Nýlega heyrði ég því fleygt að af þeim fámenna hópi Íslendinga sem búsettur eru í Brasilíu séu allavega tveir í fangelsi og í einu næturskýli fyrir heimilislausar konur rétt fyrir utan Kaupmannahöfn í Danmörku þar sem gistipláss er fyrir átta konur, eru tvö rúm nýtt af íslenskum konum.
Við Íslendingar sem þjóð erum ekkert ólík öðrum þjóðum, við ferðumst um heiminn, festum búsetu annars staðar og tökum þátt í lífinu víðsvegar um heiminn. Við skiljum ekki okkar menningu eftir heima á Íslandi heldur tökum hana með okkur hvert sem við förum, við jafnvel fáum grænar Ora-baunir sendar þvert yfir hnöttinn. En að öllu jöfnu tökum við þátt í því samfélagi sem við dveljum í hverju sinni, rétt eins og innflytjendur gera á Íslandi.
Fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvert annað koma í veg fyrir að við fögnum fjölbreytileikanum og njótum þess að læra hvert af öðru, en á því græðum við öll!
Marín Þórsdóttir starfsmaður URKI-R
Greinin var fengin af síðu Rauða krossins.
KÞ
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.